Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 414 . mál.


Nd.

774. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr., svohljóðandi:
    Í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum, sem eru í umsjá Náttúruverndarráðs, starfa landverðir, er annast þar eftirlit og fræðslu. Náttúruverndarráð heldur námskeið fyrir landverði, en ráðherra setur reglugerð um hæfi, menntun og starfsheimildir landvarða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Megintilgangur lagafrumvarps þessa er að styrkja þann þátt í starfsemi Náttúruverndarráðs er lýtur að fræðslu almennings um náttúru landsins, einkum í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum, með því að kveða á um störf landvarða í lögum um náttúruvernd.
    Landverðir hafa unnið á vegum Náttúruverndarráðs í um það bil 15 ár og hefur starf þeirra orðið æ mikilvægara, einkum vegna aukinnar umferðar ferðamanna í hinni viðkvæmu náttúru landsins. Ferðamannastraumur til landsins hefur stóraukist frá því að núgildandi lög um náttúruvernd tóku gildi auk þess sem áhugi Íslendinga á ferðalögum innan lands hefur eflst. Þessi aukna umferð um landið kallar á meiri fyrirbyggjandi aðgerðir í formi fræðslu um náttúru þess og umgengnisreglur og aukið eftirlit með því að umgengni um viðkvæm landssvæði sé með þeim hætti að ekki séu brotin ákvæði friðlýsingar eða náttúruverndarlaga. Þessari þróun hefur Náttúruverndarráð mætt með ráðningu landvarða á helstu ferðamannasvæðum, sem jafnframt eru friðlýst.
    Landverðir starfa nú á vegum Náttúruverndarráðs á eftirtöldum svæðum: Þjóðgörðunum í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum, við Mývatn, í
Herðubreiðarlindum — Öskju, Landmannalaugum, Hvannalindum, Dyrhólaey, á Hveravöllum, og á Hornströndum. Á sumum landsvæðum hafa landverðir fast aðsetur yfir sumartímann en á öðrum ekki, t.d. á Hornströndum.
    Starf landvarða felst einkum í því að fræða ferðamenn um gönguleiðir, náttúrufræði, landshætti, sögu viðkomandi svæðis og náttúruvernd almennt, hafa eftirlit með því að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu ekki brotin, sjá um hreinsun á svæðinu þ.e. á tjaldsvæðum og snyrtingum, sjá um rekstur og viðhald á tjaldsvæðum, gönguleiðum, merkjum, stikum og göngustígum. Þá liðsinna landverðir slösuðum, veita fyrstu hjálp og kalla á lækni og lögreglu ef með þarf.
    Landverðir eru sérstaklega þjálfaðir til starfa af Náttúruverndarráði, en á vegum ráðsins hafa verið haldin viðamikil námskeið fyrir verðandi landverði sem lokið hefur verið með prófi.
    Náttúruverndarráð og Landvarðafélag Íslands hafa lagt á það ríka áherslu að kveðið verði á um starfsmenntun og starfssvið landvarða í reglugerð. Í núgildandi lögum um náttúruvernd er ekki kveðið á um störf landvarða. Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er lögð til svipuð skipan og gildir um leiðsögumenn, sbr. lög nr. 60/1976, um skipulag ferðamála, sbr. og reglugerð nr. 130/1980, um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks. Verður ekki séð að nein rök séu fyrir því að gerðar séu minni kröfur til starfshæfis og menntunar landvarða en gerðar eru til leiðsögumanna í þeim efnum, þótt kröfur til landvarða verði að hluta til aðrar eðli málsins samkvæmt.